Að skrifa fyrir aðra – löglegt en siðlaust?

Notkun á leigupennum er ekki ný af nálinni heldur á hún sér langa sögu. Margir þekktir einstaklingar hafa nýtt sér þjónustu þeirra fyrir mismiklar fjárhæðir. Leigupennar geta því haft talsvert upp úr þessari vinnu og því betra orð sem fer af þeim og því meiri reynslu sem þeir hafa, því hærri upphæðir geta þeir rukkað fyrir þjónustuna. Þetta er ekki ólöglegt en það má sannarlega spyrja um siðferði þess.

Hvað er leigupenni?

Leigupenni (e. ghostwriter) er sá eða sú sem skrifar fyrir annan höfund eða skrifar í nafni annars höfundar. Leigupenninn er þar af leiðandi ekki sjálfur titlaður sem höfundur verksins og fær því ekki heiðurinn af verkinu en fær aftur á móti peningagreiðslu fyrir (Shamoo og Resnik, 2015; Rennie og Flanagin, 1994).

Vel borgað starf

Misjafnt er hve há sú upphæð er sem leigupennar fá greitt fyrir þjónustu sína. Í Bandaríkjunum er talað um að leigupennar rukki allt frá 10 dollurum upp í 25.000 dollara, eða 1100 til 230.000 krónur, fer það allt eftir umfangi og verki (Cole, e.d.). Einnig getur þetta farið eftir reynslu þeirra sem leigupennar, því lengur sem þeir hafa fengist við starfið, því hærri upphæðir geta þeir farið fram á. Bartel (e.d.), sem sjálfur hefur starfað sem leigupenni, segir að fyrstu tvö árin sé hægt að þéna um 5000 dollara eða um 583.000 krónur. Eftir fimmtán ár eða lengur í starfi er hægt að innheimta um og yfir 20.000 dollara eða rúmar 2,3 milljónir króna fyrir stórt verk. Sumir rukka 50 til 100 dollara á klukkutímann, eða 5500 til 11.000 krónur, sem fer eftir stærð viðskiptavinarins (Bartel, e.d.). Samkvæmt Molinari (2014), kennara við Nottinghamháskóla, er misjafnt hve mikið leigupennar í Bretlandi rukka fyrir þjónustu sína en hún segir að hægt sé að hafa góð laun upp úr því að skrifa fyrir aðra. Sagt er til dæmis að Saif al-Islam Gaddafi, sonur Muammar Gaddafi, fyrrum leiðtoga Lýbíu, hafi greitt leiðbeinanda sínum 600 pund, eða um 92.000 krónur, fyrir ritgerðir og verkefni þegar hann var við nám í Englandi (Watt, 2011). Þegar fyrrum háskólakennari við Texas Tech háskólann í Bandaríkjunum missti stöðu sína þar og hafði verið atvinnulaus í þrjú ár, byrjaði hún að vinna fyrir sér sem leigupenni fyrir háskólanemendur og árið 2012 var hún að þéna allt að 12.000 dollara á ári eða um 1,4 milljónir króna (Delaney, 2012).

Ekki nýtt af nálinni

Að nota leigupenna er ekki nýtt af nálinni. Hve lengi þetta hefur tíðkast eru fræðimenn ekki sammála um. Sumir þeirra segja að notkun á leigupennum megi rekja til auglýsingastofnana (Fletcher, 2005) en aðrir vilja fara lengra aftur í tímann. Brigance (1956) segir suma fræðimenn vilja meina að leigupennaskrif hafi byrjað þegar útvarpssendingarnar hófust en hann sjálfur segir þetta hafa byrjað mun fyrr. Að hans sögn hafa slík skrif verið stunduð víðs vegar í 2300 ár og nefnir meðal annars dæmi um að enn séu til ræður sem ritaðar voru af leigupennanum Antífon frá því um 411 f.Kr. Brigance (1956) nefnir einnig nokkrar þekktar persónur sem notuðu leigupenna á sínum tíma. Júlíus Sesar Rómakeisari nýtti nokkra ritara sína sem leigupenna, George Washingon, fyrsti forseti Bandaríkjana, gerði slíkt hið sama og var með allavega þrjá ritara sem höfðu það hlutverk að vera leigupennar hans. Svipaða sögu má segja um aðra Bandaríkjaforseta, eins og Andrew Jackson og Herbert Hoover (Brigance, 1956).

Í heimi bókmennta

Í bókaheiminum höfum við heyrt af leigupennum og að höfundar skrifi undir dulnefni. Af einhverjum ástæðum vilja sumir þessara höfunda ekki skrifa undir eigin nafni og hentar það þeim vel að vera leigupennar. Eitt gamalt íslenskt dæmi er bókin Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eftir Mörtu Maríu Stephensen sem kom út árið 1800. Þetta er fyrsta matreiðslubókin sem kom út á prenti á Íslandi en í raun er það ekki Marta María sem er höfundur hennar, heldur bróðir hennar Magnús Stephensen (Marta María Stephensen, 1998). Sagan segir að á þessum tíma hafi ekki tíðkast að karlmenn gæfu út matreiðslubækur, svo hann hafi fengið systur sína til að vera skráður höfundur bókarinnar.

Löglegt en siðlaust?

Þegar kemur að akademískum fræðum fara málin að flækjast. Í Bandaríkjunum og Bretlandi er ekki ólöglegt að nota leigupenna en er aftur á móti talið siðlaust (Delaney, 2012; Molinari, 2014). Riley og Brown (1996) segja einmitt nútíma umræðu um notkun á leigupennum snúast um siðferði. Molinari (2014) hefur sömu sögu að segja, leigupennaskrif séu ekki ólögleg en siðferði þeirra sé álitamál. Aftur á móti segist hún skilja af hverju margir háskólanemar nýti sér þjónustu leigupenna, álagið og samkeppnin séu mikil og í sumum tilfellum er aðeins þrennt í stöðunni hjá stúdentum, biðja um aðstoð, fremja ritstuld eða hætta námi. Hér á landi varðar ritstuldur hinsvegar við höfundalög nr. 73/1973 og hafa til dæmis bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík sett klausur um ritstuld inn í sínar reglur (Háskóli Íslands, 2009; Háskólinn í Reykjavík, e.d.).

Riley og Brown (1996) velta fyrir sér heiðarleika þess að styðjast við leigupenna og hvort það skipti máli hver noti þjónustu þeirra og hvenær. Eru einhverjir einstaklingar stikkfrí og það að þeir noti leigupenna sé ekki eins rangt og ef einhver annar gerir það? Sumum finnst notkun leigupenna vera mikilvæg til að skapa góða ímynd meðal almennings og má þar nefna sem dæmi Bandaríkjaforseta og notkun þeirra á leigupennum til að semja fyrir sig ræður. Þeir sem styðja notkun leigupenna við skrif segja að það skapi ekki nein siðferðisleg álitamál. Það sé ekkert rangt við það því fólk viti að sá sem flytur ræðuna sé ekki endilega sá sem skrifaði hana (Riley og Brown, 1996).

Ýmsar aðrar ástæður eru fyrir notkun á leigupennum og hafa til dæmis lyfjafyrirtæki gert það lengi, meðal annars í þeim tilgangi að fela hvernig ritverkið er fjármagnað (Fletcher, 2005; Shamoo og Resnik, 2015). Í sumum tilfellum fá þau leigupenna til að skrifa fyrir sig skýrslur þrátt fyrir að leigupennararnir hafi ekki tekið þátt í rannsókninni sjálfri eða þá að lyfjafyrirtækin sjálf eru leigupennarnir og fá fræðimenn til að vera skrifaðir höfundar eða meðhöfundar til að auka trúleika skýrslunnar (Shamoo og Resnik, 2015; Rennie og Flanagin, 1994). Að mati WAME (The World Association of Medical Editors) er slíkt ekki aðeins óheiðarlegt, heldur einnig óviðunandi, og þurfa ritstjórar að hafa mjög skýrar reglur um slíkt og að tilgreindir höfundar greina séu í raun hinir réttu (Fletcher, 2005). Rennie og Flanagin (1994) nefna dæmi þar sem ritstjórar hringdu í höfund sem skráður var fyrir verkinu. Þá voru þeir sendir á milli fræðimannsins, sem hafði ekki hugmynd um hvað hafði verið skrifað í greininni, og hins raunverulega höfundar, sem skildi ekki fræðin á bakvið greinina. Það má því með sanni spyrja sig hvar siðferðið sé þarna.

Að lokum

Líklegast hefur fólk misjafna skoðun á því hvað sé rangt og hvað sé ekki rangt við notkun á leigupennum. Þó notkun þeirra hafi verið í lagi fyrir mörgum, jafnvel hundruðum ára, þá eru tímarnir aðrir í dag. Í bókmenntaheiminum væri hægt að líta framhjá leigupennaskrifum í einhverjum tilfellum enda allt annars eðlis. Þegar kemur hins vegar að akademískum fræðum vandast málin. Í okkar samfélagi viljum við geta treyst því að baki rannsókna liggi heiðarleiki og að hagsmuna fólksins sé gætt en ekki einstakra fyrirtækja. Það má því með sanni segja að í þeim tilfellum fara lög og siðferði ekki saman, leigupennaskrif eru lögleg en siðlaus.

 

Heimildaskrá

Bartel, D. C. (e.d.). Ghostwriting rates: Avoid the client-turned-casper [bloggfærsla]. Sótt af https://www.freelancewriting.com/ghostwriting/ghostwriting-rates/

Brigance, W. N. (1956). Ghostwriting before Franklin D. Roosevelt and the radio. Today´s  Speech, 4(3), 10-12. https://doi.org/doi:10.1080/01463375609384950

Cole, K. (e.d.). What is a ghost writer [bloggfærsla]? Sótt af   https://www.freelancewriting.com/ghostwriting/what-is-a-ghostwriter/

Delaney, A. (2012, 9. apríl). Unemployed for years, professor turns to ghostwriting for students. Huffpost. Sótt af https://www.huffingtonpost.com/2012/04/09/unemployed-
professor-texas-tech_n_1412585.html

Fletcher, R. (2005). Ghost writing initiated by commercial companies. Journal of General Internal Medicine, 20(6), 549. https://doi.org/doi:10.1111/j.1525-1497.2005.41015.x

Háskóli Íslands. (2009). Reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sótt af    https://www.hi.is/haskolinn/reglur_fyrir_haskola_islands

Háskólinn í Reykjavík. (e.d). Ritstuldur. Sótt af       https://www.ru.is/bokasafn/heimildavinna/ritstuldur/

Höfundalög nr. 73/1972.

Marta María Stephensen. (1998). Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur (3. útgáfa). Í Þorfinnur Skúlason og Hrafnkelsson (ritstjórar), Heimildarit Söguspekingastiftis: 1. bindi. Hafnarfjörður: Söguspekingastifti.

Molinari, J. (2014, 3. apríl). Academic ghostwriting: To what extent is it haunting higher education [bloggfærsla]? Sótt af https://www.theguardian.com/higher-education-network/blog/2014/apr/03/academic-proofreading-write-essays-universities-students-ethics

Rennie, D. og Flanagin, A. (1994). Authorship! Authorship! Guests, ghosts, grafters, and the two-sided coin. JAMA, 271(6), 469-471.         https://doi.org/doi:10.1001/jama.1994.03510300075043

Riley, L. A. og Brown, S. C. (1996). Crafting a public image: An empirical study of the ethics of ghostwriting. Journal of Business Ethics, 15(7), 711-720.  https://doi.org/doi:10.1007/bf00381736

Shamoo, A. E. og Resnik, D. B. (2015). Responsible conduct of research (3. útgáfa). New  York: Oxford University Press.

Watt, H. (2011, 1. desember). Gaddafi´s son paid LSE tutor £4,000 per month for help with his homework. The Telegraph. Sótt af https://www.telegraph.co.uk/news/worldnews/
africaandindianocean/libya/8929365/Gaddafis-son-paid-LSE-tutor-4000-per-month-for-help-with-his-homework.html

 

Creative Commons notkunarleyfi
Þetta verk er gefið út með Creative Commons TilvísunHöfundar 4.0 Alþjóðlegt afnotaleyfi.

 

Design a site like this with WordPress.com
Byrjum